Upphlutur breyttist í samræmi við tíðaranda, tísku og fáanleg efni. Upphlutur 20. aldar varð að mörgu leyti ólíkur þeim sem konur klæddust öldinni áður. Pils var svart, saumað úr klæði, silkisatíni, eða efni sem líktist því, og upphluturinn úr svipuðu efni og alltaf svartur. Bolurinn varð flegnari en fyrr og millupör aðeins fjögur. Flauelsborðar á barmi breikkuðu og voru skreyttir vírbaldýringum eða silfurrósum. Á baki héldust mjóar leggingar á axlarsaumum og tvær á miðju baki. Skyrtan gat verið flegin, svört, hvít eða mislit, úr ýmsum efnum, rétt eins og svuntan og um miðbik aldarinnar var farið að nota gerviefni í svuntu og skyrtu. Húfan var grunn, saumuð úr flaueli, með löngum, svörtum silkiskúf. Silfurnæla var við hálsmál, silfurermahnappar svo og stokkabelti eða silfurskreytt flauelsbelti. Nútímaupphlutur er oftast saumaður úr ullarefni, skyrta höfð ljós, og svunta köflótt eða langröndótt og grunn húfa prjónuð úr fínu, svörtu ullarbandi. Við upphlutinn eru konur í svörtum sokkum og skóm.