Peysuföt breyttust eftir tíðaranda, tísku og fáanlegum efnum. Peysuföt 20. aldar urðu að mörgu leyti ólík þeim sem konur klæddust öldinni áður. Pils og peysa voru svört, saumuð úr klæði, silkidamaski eða efni sem líktist því, einstaka sinnum úr flaueli. Peysan var sem fyrr aðskorin, með stakk (stokk) að aftan, flauel saumað á boðunga og fremst á ermar og ermar með svolitlu púffi á öxlum. Undir peysuna að framan var lagt hvítt peysubrjóst, skreytt blúndu eða útsaumi, sem sá í á opnum barminum. Slifsið var langur silkirenningur, þrætt við hálsmál peysunnar og brugðið í slaufu á barmi. Það var oftast úr silki, einlitt eða marglitt, rétt eins og svuntan. Húfan var grunn, saumuð úr flaueli, með löngum, svörtum silkiskúf. Um miðbik aldarinnar var nokkuð um að notuð væru marglit gerviefni í slifsi og svuntu. Nútímapeysuföt eru oftast saumuð úr ullarefni, slifsi úr silki svo og köflótt eða langröndótt svuntan og grunn húfan prjónuð úr fínu, svörtu ullarbandi. Með peysufötum klæðast konur svörtum sokkum og skóm.