Lög félagsins

Lög Heimilisiðnaðarfélags Íslands

I. kafli - Nafn, heimili og tilgangur

 
1. gr.
Félagið heitir Heimilisiðnaðarfélag Íslands. Nafn þess er skammstafað HFÍ.
 
2. gr.
Heimilisiðnaðarfélagið er landsfélag. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 
3. gr.
Hlutverk félagsins er að efla og vernda þjóðlegan íslenskan heimilisiðnað og viðhalda þekkingu og áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti sem hæfa kröfum nýs tíma og eiga sér rætur í þjóðlegum menningarafi.
 
4. gr.
Að markmiðum félagsins skal unnið með:
a. kynningu á íslenskum heimilisiðnaði, fræðslufundum, sýningum og útgáfu fréttabréfs, tímarits og handbóka til fræðslu og leiðbeiningar
b. rekstri heimilisiðnaðarskóla og þjónustudeildar
c. öðrum þeim hætti sem stjórn félagsins ákveður hverju sinni
 
5.gr.
Félagið á aðild að heimilisiðnaðarsamtökum Norðurlanda, Nordens husflidsforbund.
 

II. Kafli - Félagar, félagsgjöld og hlunnindi félaga

 
6. gr.
Allir áhugamenn um íslenskan heimilisiðnað geta orðið félagsmenn.
 
7. gr. 
Árlegt félagsgjald er ákveðið á aðalfundi. Félagar sem ekki greiða félagsgjöld, þótt þeir hafi fengið kröfu þar um, falla sjálfkrafa af félagaskrá.
 
8. gr.
Skuldlausir félagar hafa atkvæðisrétt á aðalfundi og öðrum fundum félagsins. Þeir fá ársritið Hug og hönd án endurgjalds. Þeir njóta afsláttar á námskeiðum félagsins og af vörum Þjónustudeildar í samræmi við ákvörðun stjórnar.
 
 

III. KAFLI - Aðalfundur / félagsfundir

 
9. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda í apríl eða maí ár hvert. Stjórn skal boða til aðalfundar með a.m.k. fjórtán daga fyrirvara á heimasíðu, með tölvupósti eða öðrum óyggjandi hætti. Í fundarboði komi fram dagskrá aðalfundar.
Aðalfundur er löglegur, ef löglega er til hans boðað. 
 
Störf aðalfundar eru þessi:
 
1. Formaður setur fundinn og stjórnar kosningu nefndar sem athugar kosningarétt fundarmanna og skilar áliti.
2. Formaður stjórnar kosningu fundarstjóra.
3. Fundarstjóri skipar fundarritara.
4. Fundarstjóri gefur yfirlýsingu um lögmæti fundar.
5. Skýrsla stjórnar og starfsnefnda.
6. Gjaldkeri félagsins leggur fram endurskoðaða reikninga og skýrir þá.
7. Umræður um skýrslur stjórnar og reikninga.
8. Lagabreytingar hafi komið tillaga þar um skv. 23 gr. 
9. Kosning aðalstjórnar og varastjórnar samkvæmt 14. gr.
10. Kosning fastanefnda, samkvæmt 21. gr.
11. Kosning tveggja skoðunarmanna til eins árs í senn og eins til vara til að endurskoða reikninga félagsins.
12. Ákvörðun um félagsgjöld næsta starfsárs, sbr. 7. gr.
13. Önnur mál.
 
Þátttaka félagsins í erlendum og alþjóðlegum heimilis- og listiðnaðarsamtökum skal ákveðin á aðalfundi.
 
10. gr.
Ársreikningar félagsins skulu birtir á heimasíðu þess að minnsta kosti viku fyrir aðalfund svo að félagsmenn geti kynnt sér þá.
 
11. gr.
Fundargerð aðalfundar skal undirrituð af fundarstjóra og ritara aðalfundar og birt á heimasíðu. Halda skal skrá um fundarsókn aðalfundar.
 
12. gr. 
Stjórn félagsins er heimilt að boða til almennra félagsfunda svo oft sem þurfa þykir. Skylt er að halda fund ef 10 félagsmenn óska þess skriflega. Stjórn er skylt að halda fund innan þriggja vikna frá því að lögleg krafa er fram sett. Boða skal almenna félagsfundi á heimasíðu félagsins og með tölvupósti til félagsmanna með a.m.k. tíu daga fyrirvara.
 
13. gr.
Formaður setur fundi og stýrir þeim eða felur kjörnum fundarstjóra fundarstjórn. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á fundum félagsins nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Atkvæðagreiðsla skal vera leynileg ef þess er óskað. Við kjör stjórnar á aðalfundi skal endurtaka atkvæðagreiðslu verði kosning jöfn. Verði kosning enn jöfn skal hlutkesti ráða.
 
14. gr
Stjórn félagsins skipa fimm menn: formaður, varaformaður og þrír meðstjórnendur. Varastjórn félagsins skipa tveir menn. Sá varamaður sem fyrr er kosinn tekur fyrst sæti í stjórn. 
 
Stjórn og varastjórn er kosin með skriflegri kosningu á aðalfundi félagsins til tveggja ára. Formaður og varaformaður eru kosnir sérstaklega. Annað árið skal kjósa formann, tvo meðstjórnendur og einn mann í varastjórn. Hitt árið skal kjósa varaformann, einn meðstjórnanda og einn mann í varastjórn.
 
Allir félagsmenn eru kjörgengir til stjórnar, en þó missa þeir kjörgengi sem setið hafa þrjú kjörtímabil í röð en öðlast kjörgengi aftur á næsta aðalfundi. Heimilt er þó að kjósa formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna, þótt þeir hafi setið þrjú kjörtímabil, og telst þá starfsaldur að nýju. Sama regla gildir um þann sem kosinn er úr varastjórn í aðalstjórn. Enginn skal þó sitja lengur en 12 ár samfellt í stjórn.
 
Skuldlausir félagsmenn geta gefið kost á sér í stjórn félagsins eða í starfsnefndir þess. Félagsmenn geta gert tillögur um aðra félagsmenn til kjörs í stjórn eða starfsnefndir eftir að hafa aflað samþykkis viðkomandi. Tillögur skulu vera skriflegar og berast skrifstofu félagsins a.m.k. viku fyrir aðalfund.
 
Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórn með sér verkum, kýs ritara og gjaldkera.
 
Ritari gegnir ritarastörfum og heldur gerðabók.
 
Gjaldkeri hefur umsjón með fjárreiðum félagsins í samræmi við ákvörðun stjórnar. Hann skal leggja fram endurskoðaða reikninga eigi síðar en á síðasta stjórnarfundi fyrir aðalfund.
Að öðru leyti ákveður stjórn hverju sinni skiptingu verkefna milli stjórnarmanna.
 
15. gr.
Formaður boðar til stjórnarfundar svo oft sem þurfa þykir. Skylt er honum að boða stjórnarfund ef tveir stjórnarmanna óska þess. Stjórnarfundur er lögmætur ef fjórir úr stjórn og varastjórn eru mættir.
Stjórnin fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Hún sér um að framfylgja lögum félagsins, samþykktum aðalfunda og félagsfunda og ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum en falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns.  
Stjórn ræður framkvæmdastjóra Heimilisiðnaðarfélagsins sem stýrir daglegum rekstri félagsins. 
Stjórn ræður annað starfsfólk í samráði við framkvæmdastjóra.
Ráðningarsamningar skulu gerðir við starfsfólk.
 
16. gr.
Stjórnin setur fastanefndum erindisbréf í samræmi við 21.gr.
Stjórn heldur fund með fastanefndum a.m.k. einu sinni á ári.
 

V. KAFLI - Fjármál

 
17. gr.
Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins og skuldbindur það gagnvart öðrum aðilum. Gera skal fjárhagsáætlun um starfsemi félagsins. Öll meiri háttar mál er fjármál varða skal stjórnin bera undir aðalfund eða félagsfund.
 
18. gr.
Stjórn félagsins ber að varðveita öll skjöl og gögn er geyma heimildir um störf félagsins.
 
19. gr.
Stjórnin ræður viðurkenndan bókara til þess að annast bókun og gerð ársreikninga. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
 
20. gr.
Stjórn félagsins er þá aðeins heimilt að kaupa eða selja fasteignir, byggja hús eða taka ákvarðanir sem hafa í för með sér verulegar fjárskuldbindingar, að fyrir liggi samþykki aðalfundar eða félagsfundar.
Ákvarðanir sem skuldbinda félagið fjárhagslega en falla ekki undir 1. mgr., þurfa undirskrift fjögurra stjórnarmanna.
 

VI. KAFLI - Fastanefndir

 
21. gr.
Eftirtaldar nefndir skal skipa til þess að hafa umsjón með ákveðnum málaflokkum í samráði við stjórn félagsins:
 
1. Fræðslu- og fundanefnd, sem stendur fyrir viðburðum og hefur frumkvæði að fræðslu- og kynningafundum.
2. Safnanefnd, sem sér um og skráir bóka- og munasafn félagsins.
3. Skólanefnd, sem skal gera tillögur um viðfangsefni skólans.
4. Ritnefnd, sem ritstýrir tímariti félagsins.
5. Verslunarnefnd, sem starfar með starfsmanni verslunar og er til aðstoðar varðandi vöruval, kynningu og rekstur. 
6. Handverkskaffinefnd, sem sér um handverkskaffi.
7. Uppstillingarnefnd, sem stillir upp í nefndir og stjórn fyrir kosningar á aðalfundi.
 
Hverja nefnd skulu skipa fimm menn, nema uppstillingarnefnd, sem skal skipuð þremur mönnum, sbr. 22. gr. Á aðalfundi skal kjósa tvo menn annað árið og þrjá hitt árið til tveggja ára í senn. Nefndarmenn skipta sjálfir með sér verkum. Sá nefndarmaður sem er fremstur í stafrófinu boðar fyrsta fund eftir aðalfund. Formaður nefndar er tengiliður við stjórn.
Auk þessara sjö framantalinna fastanefnda getur aðalfundur eða stjórn félagsins ákveðið að skipa í nefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum innan félagsins.
Störf í fastanefndum félagsins eru ólaunuð, nema stjórn félagsins ákveði annað.
 
22. gr.
Uppstillinganefnd skipa þrír menn. Einn er kosinn hvert ár til tveggja ára í senn og einn tilnefndur af stjórn til eins árs í senn. Hlutverk nefndarinnar er að tryggja að framboð berist til allra embætta HFÍ sem kosið er í á aðalfundi.

VII. KAFLI - Lagabreytingar

 
23. gr. 
Lögum félagsins verður ekki breytt nema á aðalfundi. Þarf 2/3 hluta atkvæða til þess að breytingar nái fram að ganga. Í aðalfundarboði skal þess sérstaklega getið að tillaga verði lögð fram og efni hennar lýst.
Skriflegar tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins fyrir 1. mars.
 
24. gr. 
Ef slíta á félaginu verður það einungis gert á fundi þar sem mættir eru minnst 3/4 allra skráðra skuldlausra félaga, enda greiði 2/3 hlutar fundarmanna því atkvæði. Ef tilskilinn hluti félagsmanna mætir ekki má boða til nýs fundar og verður þá félaginu slitið á löglegan hátt, ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða því atkvæði.
Verði félaginu slitið skulu eignir þess afhentar Mennta- og menntamálaráðuneytinu, sem ber að verja þeim til eflingar heimilisiðnaði í landinu.
 
25. gr.
Með lögum þessum, sem samþykkt eru á aðalfundi félagsins 27. maí 2020, falla úr gildi eldri lög félagsins.