Par af prjónum, 4-5cm langir, oftast úr silfri, ýmist silfurlitir eða gylltir og skreyttir rósettu á efri enda. Prjónarnir eru tengdir með tveimur mjóum, mislöngum keðjum. Lauf hangir á þeirri lengri, ýmist steypt, pressað eða úr víravirki. Húfuprjónar eru aðeins notaðir á grunnum skotthúfum og festir við húfubrún að aftan. Upphaflega voru húfuprjónarnir notaðir til að festa fléttuendana undir húfuna.
Elstu húfuskúfarnir voru 17-20cm langir úr togþræði eða kambgarni í rauðum, bláum eða grænum lit, stundum svartir. Slíkir skúfar eru á húfum sem bornar eru með búningum sem eiga fyrirmyndir frá 18. og 19. öld. Skúfar við 20. aldar búninga eru úr svörtu skúfasilki, 25-35cm langir.
Tengir skott og skúf á skotthúfu. Kólfurinn er gerður þannig að tala sem er u.þ.b. 2cm í þvermál er sett flöt á miðju efnisbúts. Snúið er upp á bútinn og hann saumaður saman í mjóan sívalning sem getur verið allt að 7-8cm langur. Sívalningnum er smeygt í skottið en skúfurinn er festur við þann enda sem talan er á.
Hólkur, sem hylur samskeyti húfuskotts og skúfs, oftast gerður úr silfri eða gylltu silfri. Einnig þekkist að hólkur hafi verið gerður úr vírborða á hversdagshúfum.
Skotthúfur hafa verið notaðar um aldir á Íslandi. Allar enda þær í skotti efst, við skottið er festur skúfur og hólkur hafður á mótum skotts og skúfs. Á 18. og 19. öld var húfan djúp, prjónuð úr svörtu, stundum svarbláu, fínu ullarbandi og með skúf úr ullarbandi. Á síðari hluta 19. aldar voru notaðar grunnar, prjónaðar skotthúfur, oft mjög litlar og með löngum silkiskúf. Við 20. aldar búninga er húfan ýmist prjónuð eða sniðin og saumuð úr svörtu flaueli og skúfurinn hafður úr svörtu silki. Húfan er fest við hárið með svörtum títuprjónum eða hárnálum sem ekki eiga að sjást. Stundum er saumaður kambur innan í húfuna að framan eða til hliðar, gengt skúfnum, til að auðvelda festingu við hárið. Grunn skotthúfa er eingöngu notuð við 20. aldar búninga, en djúp skotthúfa er notuð við faldbúninga og elstu gerðir peysufata og upphluts.