Undandfarin ár hefur Dr. Áslaug Sverrisdóttir unnið að ritun sögu Heimilisiðnaðarfélagsins. Tilefni söguskrifanna var 100 ára afmæli félagsins árið 2013 og mun bókin koma út haustið 2020. Útgáfa bókarinnar er samstarfsverkefni Heimilisiðnaðarfélagsins og Sögufélags.
Heimilisiðnaðarfélag Íslands hefur gefið út veglegt ársrit frá árinu 1966. Ritið, Hugur og hönd, fjallar um handverk og listiðnað af ýmsu tagi, bæði á fræðilegum og alþýðlegum grunni. Í blaðinu eru einnig birtar fjölbreyttar handavinnuuppskriftir. Hugur og hönd nýtur sérstöðu í hugum handverksunnenda enda eru efnistök einstaklega fjölbreytt. Ársritið er merk heimild um handverk og heimilisiðnað og hefur blaðið mikið söfnunargildi.
Frá vorinu 2020 hefur Hugur og hönd verið aðgengilegt á vefnum timarit.is. Þar er hægt að skoða alla árganga frá upphafi en þriggja ára birtingartöf er á nýrri blöðum.
Félagar í Heimilisiðnaðarfélaginu fá sent blaðið en einnig er hægt að gerast áskrifandi. Þeir sem vilja gerast áskrifendur geta sent tölvupóst á netfang félagsins [email protected] eða hringt á skrifstofuna í s. 551 5500.
Bókin segir frá, í máli og fjölmörgum myndum, sögu íslenskra kvenklæða og þjóðbúninga fram á 20. öld með aðaláherslu á faldbúninginn sem var notaður fram á 19. öld. Honum er lýst í heild og einstökum hlutum hans og fjölmörgum fylgihlutum. Efni, margskonar saumaskap og mynstrum ásamt silfrinu eru gerð greinargóð skil. Inn í lýsinguna er fléttuð frásögn af einstaklega merkilegum faldbúningi sem grasafræðingurinn William Hooker hafði með sér til Englands árið 1809 þar sem Jörundur hundadagkonungur er í lykilhlutverki. Sá búningur er varðveittur á Victoríu og Albertssafninu í Lundúnum.
Bókina má fá í verslun Heimilisiðnaðarfélagsins og í bókabúðum. Bókin er afrakstur margra ára vinnu höfundarins og Faldafeykis, hóp áhugakvenna um íslenska faldbúninginn, og kom út afmælisárið 2013.
Höfundur er Sigrún Helgadóttir, líffræðingur, áhugakona um íslenska þjóðbúninginn og fyrrverandi formaður Heimilisiðnaðarfélagsins.
Sjónabók er handrit með munstrum sem notuð voru í útsaumi, vefnaði og til ýmissa hannyrða áður fyrr. Heimilisiðnaðarfélag Íslands, í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, gáfu út Íslenska sjónabók vorið 2009.
Þar má finna íslensk munstur frá 17., 18. og 19. öld sem varðveitt eru í 10 handritum á Þjóðminjasafninu og Þjóðminjasafni Dana og eru hér í einni bók sem telur um 700 blaðsíður. Texti bókarinnar er bæði á íslensku og ensku.
Bókinni fylgir geisladiskur með öllum munstrunum sem hægt er að prenta út að vild. Allt til frjálsrar notkunar í hönnun, handverk og kennslu. Íslensk sjónabók á að vera brunnur hugmynda að nýsköpun með sterka tilvísun í sérstakan íslenskan menningararf.
Bókin kostar 26.500 kr. í verslun Heimilisiðnaðarfélagsins í Nethyl. Félagsmenn fá 10% afslátt af verði bókarinnar.