Margar konur fengu sér upphlut fyrir Alþingishátíðina 1930 og saumuðu líka svipaða búninga á dætur sínar en þó oftast litskrúðugri. Skyrtan var hvít úr þunnu efni, náði upp í háls og næla var við hálsmál. Upphluturinn var líklega oftast rauður en gat líka verið svartur eða blár. Hann var með þrjár til fjórar millur eftir stærð og baldýraða borða. Pilsið var stutt og með flauelskanti neðst, í sama lit og upphluturinn. Á höfði var stundum skotthúfa en ekki síður svo kallaður bátur, bundinn undir höku. Flauelsbelti voru stundum borin við búninginn, oft með silfurpörum og doppum, doppubelti. Stelpur voru oftast í hvítum sokkum og svörtum skóm.