Sigurður málari: Hátíðardagskrá í tilefni 150 ára ártíðar

Á vormánuðum hófst undirbúningur fyrir 150 ára ártíð Sigurðar Guðmundssonar málara, en hann lést langt fyrir aldur fram þann 7. september 1874. Sigurður hafði mikil áhrif á þjóðmenningu landsins, fyrir listsköpun, endurreisn hátíðarbúnings íslenskra kvenna í formi skautbúnings og kyrtils og ekki síst fyrir stofnun Forngripasafnsins sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands. Það er því vel við hæfi að blása til fögnuðar í Þjóðminjasafninu og heiðra Sigurð fyrir störf hans í þágu þjóðarinnar. 

 

Dagskráin er öll hin glæsilegasta en í tilefni dagsins koma út tvær nýjar útsaumspakkningar með munstrum Sigurðar fyrir skautbúning og kyrtil. Uppselt er á fyrsta námskeiðið sem haldið verður í listsaum Sigurðar, en við eigum vonandi eftir að bæta við fleiri dagsetningum. Í Myndasal á 1. hæð safnsins munu heiðurskonur skauta konur á skautbúningum og kyrtlum. Eftir hádegishlé klukkan 13:00 mun svo dr. Karl Aspelund flytja erindið Birtist nú Sigurður en Karl ritstýrði bókinni Málarinn og menningarsköpunin, Sigurður Guðmundsson og kvöldfélagið 1858-1874 ásamt Terry Gunnel sem kom út hjá Þjóðminjasafninu árið 2017. 

Dr. Terry Gunnell tekur svo á móti gestum á grunnsýningu safnsins og beinir sjónum að Sigurði málara, áhrifum hans á menningarlífið og hlutverki hans í stofnun Forngripasafns Íslands sem síðar varð Þjóðminjasafn Íslands.

Að lokum munu vinir okkar hjá Þjóðdansafélagið Íslands bjóða upp í dans! Ef til vill fáum við að læra eitt og annað um dansmenningu frá tímum Sigurðar, sem hannaði kyrtilbúninginn sem liprari dansbúning fyrir ungar konur. 

Frítt er inn á safnið fyrir þjóðbúningaklædda gesti, verið öll hjartanlega velkomin að fagna með okkur ævi Sigurðar Guðmundssonar málara!