Mánudaginn 3. maí hefst sala á þremur fyrstu útsaumspakkningunum með munstrum Karólínu. Krossaumur Karólínu eru ótrulega falleg og skemmtileg útsaumsverkefni við flestra hæfi. Munstrin eru frá Karólínu Guðmundsdóttur vefara en það er Lára Magnea Jónsdóttir textílhönnuður sem hefur valið munstur og endurhannað í takt við tímann. Það er Heimilisiðnaðarfélagið sem framleiðir pakkningar en verkefnið er samstarf HFÍ, Saumakassans (Láru Magneu) og Borgarsögusafns. Tilefnið er sýningin Karólína vefari á Árbæjarsafni sem opnar nú á vordögum. Vel er vandað til sýningarinnar sem standa mun yfir í þrjú ár. Á næstu vikum munum reglulega bætast við munstur en í heildina verða pakkningarnar af 17 mismunandi gerðum.
Fimmtudaginn 6. maí kl. 20 verður prjónakaffi í streymi (sjá viðburð hér) þar sem sagt verður frá þessu skemmtilega verkefni. F arið verður í leiðbeiningar um hvernig best er að vinna krosssaumsverkefni af þessu tagi, gefin góð ráð og kennd ýmis trix. Einnig verður sýnt hvernig útsaumurinn kemur út með því að setja hann upp í púða. Umsjón hafa Lára Magnea og Margrét Valdimarsdóttir.
Karólína Guðmundsdóttir (1897-1981) lærði ung vefnað í Kaupmannahöfn og rak um áratugaskeið Vefnaðarstofu við Ásvallagötu í Reykjavík. Þar var meðal annars um áratugaskeið framleiddur ofinn ullarjafi í ýmsum litum til útsaums. Karólína seldi einnig útsaumspakkningar sem samanstóðu af jafa, munstri með skýringum og útsaumsgarni. Útsaumspakkningar Karólínu nutu mikilla vinsælda, veggteppi og púðar ættaðir frá henni prýddu mörg íslensk heimili. Karólína var formaður Heimilisiðnaðarfélagsins á árunum 1923-1927.
Samstarfsaðili: Saumakassinn - Borgarsögusafn / Árbæjarsafn