Jakobína Guðmundsdóttir fæddist 11. maí 1925 og var formaður Heimilisiðnaðarfélagsins á árunum 1981-1987. Hún útskrifaðist sem vefnaðarkennari frá Stokkhólmi 1948 og starfaði við vefnaðarkennslu í húsmæðraskólum hérlendis árin á eftir. Síðar nam hún við Statens Lærerskola for forming í Osló á árunum 1963-1964. Stefán Jónsson var formaður Heimilisiðnaðarfélagins þegar Jakobína gekk í félagið og beindi hann henni til starfa í norrænu nefndinni. Jakobína hafði alltaf mikinn áhuga á norrænu samstarfi og stýrði Jakobína sýningum á íslenskum listmunum á norrænum heimilisiðnaðarþingum í mörg ár, auk þess sem hún skipulagði stórar sýningar innanlands. Merkilegasta sýningin að mati Jakobínu var farandssýning sem sett var upp í tilefni af 70 ára afmæli félagsins 1983. Sýnt var á sex stöðum úti á landi og fóru sýningarnefndarkonur sjálfar með sýninguna á milli staða á stórum spjöldum í sendiferðabíl. Jakobína segir í viðtali í Hugur og hönd 2015 þegar hún var gerð að heiðursfélaga að "kvenfélögin á hverjum stað útveguðu sýningarhúsnæði og tóku á móti okkur af þeim myndarskap og rausnarskap sem kvenfélagskonur eru þekktar fyrir. Ég sagði frá félaginu, stofnun þess og starfi við opnun sýninga og við enduðum svo ferðina á Akureyri. Þetta var svo skemmtilegt. -Það hafa líklega verið fleiri sýningar í gangi um þetta leyti, það var ekki talið eftir sér og bara sjálfsagt að setja upp sýningar ef það bauðst".
Jakobínu var vefnaðarlistin afar kær og var hún mikilvægur bakhjarl vefnaðarkennslu hjá Heimilisiðnaðarfélaginu í mörg ár. Við minnumst Jakobínu með hlýju og þakklæti, og sendum fjölskyldu hennar og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.