Verslun

Í verslun / þjónustudeild eru seldar vörur til þjóðbúningagerðar, áhöld og efni í vefnað og í íslenskan útsaum. Lesa meira.

Námskeið

Heimilisiðnaðarfélagið býður upp á fjölda námskeiða á hverju ári. Smelltu hér til að kynna þér úrval námskeiða okkar.

Útgáfa

Sjónabók er handrit með munstrum sem notuð voru í útsaumi, vefnaði og til ýmissa hannyrða áður fyrr. Lesa meira.

Saga félagsins

Saga félagsins

Hér er stiklað á stóru í sögu félagsins fram til 1960.  Byggt að stofninum til á grein Stefáns Jónssonar í Hug og hönd 1983.

 

Heimilisiðnaðarfélag Íslands var stofnað 12. júlí 1913.  Forsaga stofnunar þess átti eflaust rót sína að rekja um 50 ár aftur í tímann eða til ársins 1862. Þá fékk Sigurður Guðmundsson málari þá hugmynd að nauðsynlegt væri að koma upp forngripasafni til að safna þangað og varðveita þar íslenska gripi og menningarverðmæti frá 1000 ára tilveru íslenskrar þjóðar í landinu. Ástæðan hefur trúlega verið fundur gamalla muna í uppgreftri bæjar eins á Norðurlandi 1860-61. Önnur orsök og ekki veigaminni var sú að erlendir menn og söfn leituðu mjög eftir því að fá hér gamla íslenska muni, bækur og annað. Menningarverðmæti íslensk streymdu þannig til hins stóra þjóðminjasafns í Danmörku og til annarra Norðurlanda.

1863

Hugmynd Sigurðar fékk fljótt stuðning og 1863 var Forngripasafn Íslands stofnað með fyrstu gjöfinni til þess, 15 gripum frá sr. Helga Sigurðssyni, Jörva.

Með stofnun Forngripasafns Íslands fóru menn að skilja betur gildi hinnar fornu bændamenningar og starfs heimilanna og halda til haga góðum gripum og bjarga bókum frá eyðileggingu eða flutningi til útlanda. Einnig fóru menn að átta sig á vinnuaðferðum og meta hið gamla handverk.

1883

Til þess að kynna þessi sjónarmið og fá sem flesta með var sýning haldin 1883 á vegum iðnfélaga í Reykjavík. Margs konar vörur voru sýndar frá byrjandi iðnaði, áhöld, vélar, jafnvel matvörur en einnig málverk og höggmyndir. Heimilisiðnaðarhlutir áttu þó verulegan þátt í þessari sýningu: vefnaður, saumur, ullarvinna og smíðahlutir. Eftir aldamótin byrjuðu vinir heimilisiðnaðarins einnig að halda námskeið ýmiss konar, t.d. í vefnaði.

1911

Önnur sýning var haldin í Reykjavík 1911 um sama efni, einnig á vegum iðnfélaga og handverksmanna. Þar var þáttur heimilisiðnaðar enn greinilegri.

1913

Fyrstu uppástungur um stofnun Heimilisiðnaðarfélags Íslands (HÍ) munu hafa komið fram veturinn 1911-12 í Lestrarfélagi kvenna. HÍ var síðan stofnað 1913. Fyrsti formaður (hét forseti) þess var Jón Þórarinsson fræðslumálastjóri og með honum var einvalalið í stjórn, þau Matthías Þórðarson fornminjavörður, Rögnvaldur Ólafsson, fyrsti starfandi arkitekt landsins, Ásgeir Torfason, fyrsti efnafræðingur landsins, Ingibjörg H. Bjarnason, forstöðukona Kvennaskólans í Reykjavík, Inga Lára Lárusdóttir og Sigríður Björnsdóttir. Ítarleg lög voru samin og standa mörg þeirra enn og ýmsar hugmyndir hafa ennþá varla komið til framkvæmda. Félagið var landsfélag. Var þegar hafist handa um námskeið og aðra leiðbeiningarstarfsemi. Voru þau styrkt af landssjóði og Reykjavíkurbæ.

1920

Ýmis smærri heimilisiðnaðarfélög tóku að rísa úti á landi næstu árin. Var þá, 1920, stofnað Samband íslenskra heimilisiðnaðarfélaga, aðallega til útdeilingar á styrkjum til þeirra úr landssjóði og svo síðar, árið 1927, til þess að vera aðili að Heimilisiðnaðarsambandi Norðurlanda (Nordens Husflidsforbund). Við þessa breytingu varð HÍ meira félag Reykjavíkur, þótt það héti ennþá upprunalegu nafni. Með tilkomu húsmæðraskólanna og verknámsdeilda annarra skóla breyttist verksvið heimilisiðnaðarfélaganna og þeim fór fækkandi. HÍ var að lokum aftur eitt eftir. Sambandið var lagt niður 1959 og HÍ gert að landsfélagi á ný.

Margt ágætra karla og kvenna lagði starfinu lið á þessum árum en að öðrum ólöstuðum verður að nefna nafn Halldóru Bjarnadóttur, sem lengi var ráðunautur ríkisins um heimilisiðnaðarmál eða frá 1923, ferðaðist mikið um landið og stofnaði sum, ef ekki flest, félögin úti á landi.

1921

HÍ stofnaði í fyrsta sinn til landssýningar í íslenskum heimilisiðnaði 1921 í Reykjavík. Þar hefur Halldóra eflaust haft forgöngu. Þá voru erfiðir tímar, ís og sjúkdómar en samt var hugmyndin framkvæmd með vefurum og spunakonum í sýningarsölum. Ef til vill hefur koma konungs og drottningar til landsins verið hvati þessarar sýningar.

1930

HÍ stóð aftur fyrir landssýningu á heimilisiðnaði og þá í tilefni 1000 ára afmælis Alþingis. Þessi sýning var mikils virði, því hún sýndi hvers heimilisiðnaður er megnugur, fjölbreytni hans og notagildi svo og hversu vel hafði verið unnið að þessum málum síðan 1921.

1940

Þessi mikla hvatning kom á réttum tíma, því á eftir fylgdi erfitt 10 ára tímabil, kreppuárin 1930-40. Þá reyndi á dugnað fólks og hugmyndaflug: vera sjálfum sér nógur, framleiða til eigin nota og til sölu, allt sem hægt var til að bæta afkomu sína. Þá sýndi heimilisiðnaðurinn hvert gagn getur orðið af honum, sem viðfangsefni allra. Halldóra ferðaðist um landið, stofnaði sín mörgu smáfélög, hvatti og leiðbeindi.

Stríðsárin, sem fylgdu hér á eftir, 1940-1945, höfðu þar á móti lamandi áhrif á heimilisiðnaðarmálin. Framboð vinnu varð mikið, fljótfengnir peningar hjá flestum og verðbólga. Hvorki tími né þörf fyrir heimilisiðnaðarstörf í þeirri byltingu, sem varð í atvinnulífinu og áhrifum frá háþróuðum iðnaðarlöndum.

Síðasta Norræna heimilisiðnaðarþingið fyrir stríð var haldið í Svíþjóð 1937. Hið næsta hefði átt að vera 1940 í einhverju landanna, en féll niður vegna stríðsins. Fyrsta þing og sýning eftir stríð var svo í Reykjavík 1948. Síðan aftur hér á vegum HÍ 1962 og 1977 og höfum við tekið þátt í þingunum reglulega á þriggja ára fresti á Norðurlöndunum.

1950

Eftir stríðið efldist starfið á ný og kom til samvinnu Heimilisiðnaðarfélagsins og Ferðaskrifstofu ríkisins 1951-1957.

1960

Árið 1959 var landsfélagið endurreist á ný og á næstu tveimur áratugum var mikið átak gert til vaxtar og þróunar þeirra markmiða sem sett voru í upphafi, þ.e. varðandi leiðbeiningarstarf og sölu á heimilisiðnaði.

 

Heimilisfang

Heimilisiðnaðarfélagið

Nethyl 2e

110 Reykjavík

 

 

Hafðu samband

Sendu okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Hringdu í síma 551 5500

Kíktu til okkar í Nethyl 2e