Verslun

Í verslun / þjónustudeild eru seldar vörur til þjóðbúningagerðar, áhöld og efni í vefnað og í íslenskan útsaum. Lesa meira.

Námskeið

Heimilisiðnaðarfélagið býður upp á fjölda námskeiða á hverju ári. Smelltu hér til að kynna þér úrval námskeiða okkar.

Útgáfa

Sjónabók er handrit með munstrum sem notuð voru í útsaumi, vefnaði og til ýmissa hannyrða áður fyrr. Lesa meira.

Fréttir

Öflugt norrænt samstarf

Heimilisiðnaðarfélag Íslands hefur alla tíð tekið þátt í Norrænu samstarfi. Óvenju margt fréttnæmt er af þeim vettvangi um þessar mundir. Formaður félagsins sat nýlega formannafund Norrænu heimilisiðnaðarfélaganna, kennarar frá Heimilisiðnaðarskólanum halda til Eistlands á morgun 17. mars og boðið er upp á handverkssumarbúðir í Eistlandi í sumar.

Nordens husflidsforbund

Formaður félagsins sótti um nýliðin mánaðarmót formannafund Nordens husflidsforbund í Kaupmannahöfn. Fundað var um möguleika á sameiginlegri umsókn um styrk í sjóðinn HANDMADE fyrir samnorrænu verkefni tengt ull. Auk þess var haldin hefðbundin formannafundur þar sem fulltrúar Íslands, Danmerkur, Svíþjóð, Finnlands, Noregs og Eistlands fóru yfir starfsemi félaga sinna.

Nordplus

Heimilisiðnaðarfélagið hlaut á síðasta ári Nordplus styrk til kennaraskipta milli Íslands, Finnlands og Eistlands. Styrkurinn felur í sér ómetanlegt tækifæri til fá til félagsins þekkingu og færni frá öðrum löndum og deila um leið með öðrum. Farnar verða þrjár ferðir á milli landanna sú fyrsta var í september síðastliðnum en þá komu fjórir kennara hingað til lands, á morgun þann 17. mars halda fjórir kennarar héðan til Eistlands og í ágúst er ráðgert að fjórir kennarar komi hingað. Í ferðina til Eistlands nú fara þær Dóra Guðrún Ólafsdóttir sem kennir útsaum, Freyja Kristjánsdóttir sem kennir sauðskinnskógerð, Hulda Soffía Arnbergsdóttir sem kennir prjón og Guðrún Kolbeins sem kennir vefnað ásamt Solveigu Theodórsdóttur fyrrverandi formanni félagsins sem er fararstjóri. Breidd hópsins, sem samanstendur af nýjum yngri og eldri reyndari kennurum, verður til þess að gera verkefnið sem best úr garði af okkar hálfu. Það mun skila okkur enn betri kennurum og vonandi nýjum námskeiðum.
 

Handverksbúðir í Eistlandi 9.-15. júlí   

Handverkshefð í Eistlandi er einstaklega heillandi. Nú býðst áhugasömum að taka þátt í handverksbúðum í Olustvere dagana 9.-15. júlí. Þetta er einstakt tækifæri til að kynnast eistnesku handverki bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Prjón, hekl, saumur, útsaumur, keramik og gler, silfur og vinna með bein- og tré er meðal þess sem boðið er upp á. Framboð námskeiða má skoða hér.

Handverksbúðirnar eru skipulagðar af UT Viljandi Culture Academu Estoninan Native Crafts Department sem þekkt eru fyrir hágæða handverkskennslu. Kennsla fer fram á ensku. Snemmskráning er til 28. mars en skráningu lýkur 20. maí. Þátttaka kostar 900 evrur en hækkar um 50 evrur eftir 28. mars. Innifalið eru ferðir til og frá Tallinn til Olustvere, gisting í 6 næstur, 6 morgunverðir, 5 hádegisverðir og 6 kvöldverðir, kaffihressingar, 4 námskeið í 6 klst á dag í 4 daga (efni innifalið) fræðslumyndasýning, kvöldverður á Olustvere Mansion og dagsferð til eins af eftirfarandi stöðum: Viljandi, Pärnu eða Setomaa. Frekari upplýsingar má finna hér.

Þjóðbúningadagur sunnudaginn 13. mars

buningadagur 1

Safnahúsið við Hverfisgötu verður umgjörð Þjóðbúningdags sem haldinn verður sunnudaginn 13. mars kl. 14. Á þessum degi hittist fjöldi fólks í þjóðbúningum af öllu tagi til að sýna sig og sjá aðra. Þjóðdansafélag Reykjavíkur sýnir þjóðdansa og fulltrúar frá Heimilisiðnaðarfélaginu munu klæða konu í faldbúning frá skyrtu og undirpilsi að fullum skrúða. Gestum gefst auk þess kostur á að fá aðstoð við að klæðast búningum, til að mynda hnýta peysufataslifsi eða festa húfur. Þetta er því kjörið tækifæri til að klæðast þjóðbúningum. Á þessum degi er hvatt til þess að fólk af frá öðrum löndum komi í sínum þjóðbúningum svo fljölbreyttnin megi vera sem mest.

Allir eru hjartanlega velkomnir á þjóðbúningadaginn hvort sem þeir klæðast sjálfir búning eða vilja heldur dáðst að öðrum. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem hafa hugleitt að sauma búning en hafa ekki látið verða af því ennþá sem og alla þá sem njóta þess að dáðst að fallegu handverki.

Dagskrá

14:00 - Boðið upp á aðstoð við klæðnað

14:30 - Frá undirpilsi að fullum skrúða - kona klædd í faldbúning

15:00 - Danssýning

 

Tilboð á kaffihúsinu í tilefni dagsins.

 

Útsaumur af ýmsu tagi

skalssaumur netid„Ein ég sit og sauma“ - Margir eiga góðar minningar tengdar textanum um stúlkuna sem situr ein og saumar inni í litlu húsi. Þó það kunni að vera notalegt að sitja ein og sauma er enn notalegra að stunda slíkt í félagsskap við aðra með sama áhuga. Til þess gefst kjörið tækifæri á útsaumsnámskeiðum.

Útsaumur er skemmtileg handavinna enda heillandi að galdra fram fegurð með nál og þráð að vopni. Útsaumsgerðir eru fjölmargar og möguleikarnir margbreytilegir. Svartsaumur, þar sem einungis er saumað með svörtum þræði, hvítsaumur þar sem saumað er með hvítu í hvít og harðangur og klaustur þar sem skiptast á stólpar og fyllingar í útklippt göt eru á meðal fjölmargra útsaumsgerða. Þrívíddarsaumur felur í sér að beita mörgum ólíkum aðferðum í sama verkinu til að fá fram ólíkar áferðir svo gæða megi mynd eða munstur lífi. Dæmi um nöfn á sporum sem þar eru notuð er varpleggur, fræhnútar, spíralar, tunguspor og hedeotakkar. Saumað er út í bómull eða hör sem munstrið hefur verið fært yfir á. Refilsaumur er forn útsaumsaðferð en reflar skreyttu hús og kirkjur á miðöldum. Útlínur eru saumaðar fyrst og síðan er fyllt inn í fletina og saumaðar aukaútlínur til áherslu. Gamli krosssaumurinn er eins konar fléttuspor sem saumað er út í stramma og kannast margir við svokallað riddarateppi sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu.

Þessar útsaumsgerðir og fleiri má læra á námskeiðum í Heimilisiðnaðarskólanum sjá nánar um öll útsaumsnámskeiðin hér. Námskeiðin eru ýmist tvö, þrjú eða fjögur kvöld en á þeim er kennd grunnatriði, gerðar prufur og unnin ákveðin verkefni.

Þjóðbúningakaffi í Hannesarholti

thjodbuningar netidSunnudaginn 24. janúar kl. 14 er þjóðbúningakaffi í Hannesarholti, Grundarstíg 10. Hittumst á búningum og eigum saman notalega stund í huggulegu umhverfi. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna enda er hér á ferðinni kjörið tækifæri til að viðra þjóðbúninga hvaða nafni sem þeir nefnast, upphlutir, peysuföt, faldbúningar, herrabúningar, kyrtlar, skautbúningar og barnabúningar. Þeir sem nýlokið hafa við að sauma þjóðbúning eru sérstaklega velkomnir.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. í síðasta lagi fimmtudaginn 21. janúar. Sérstakt tilboð verður á kaffiveitingum í tilefni dagsins, kaffi og kökudiskur með sneiðum af hjónabandssælu og súkkulaðiköku með rjóma á 1.350,- kr.

Hannesarholt er sérlega skemmtilegt umhverfi fyrir þjóðbúningakaffi en húsið var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein fyrsta ráðherra Íslands. Í Hannesarholti er rekin fjölbreytt menningarstarfsemi ásamt veitingarekstri en nánar má lesa um Hannesarholt á heimasíðu hússins hér.

Heimilisfang

Heimilisiðnaðarfélagið

Nethyl 2e

110 Reykjavík

 

 

Hafðu samband

Sendu okkur tölvupóst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Hringdu í síma 551 5500

Kíktu til okkar í Nethyl 2e