Fréttir

Þjóðbúningakaffi í Hannesarholti 22. janúar

hannesarholtSunnudaginn 22. janúar kl. 14 er þjóðbúningakaffi í Hannesarholti við Grundarstíg 10. Hittumst á búningum og eigum saman notalega stund í huggulegu umhverfi. Félagsmenn eru hvattir til að fjölmenna enda er hér á ferðinni kjörið tækifæri til að viðra þjóðbúninga hvaða nafni sem þeir nefnast. Þeir sem nýlokið hafa við að sauma þjóðbúning eru sérstaklega velkomnir. Samkoma með þessu sniði var haldin á síðasta ári og heppnaðist hún einstaklega vel og var því ákveðið að endurtaka leikinn.

Eftir kaffið kl. 15 býðst öllum að taka þátt í þjóðbúningasöngstund í Hljóðbergi sem er samkomu og tónleikasalur hússins. Rósa Jóhannesdóttir stýrir söngstundinni en henni til halds og traust verða ungar dætur hennar þær Iðunn Helga og Gréta Petrína.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða hringja í síma 5515500 í síðasta lagi fimmtudaginn 19. janúar. Sérstakt tilboð verður á kaffiveitingum í tilefni dagsins, kaffi og kökudiskur með tveimur kökusneiðum með rjóma á 1.500,- kr.

Hannesarholt er sérlega skemmtilegt umhverfi fyrir þjóðbúningakaffi.  Húsið var byggt árið 1915 fyrir Hannes Hafstein fyrsta ráðherra Íslands. Í Hannesarholti er rekin fjölbreytt menningarstarfsemi ásamt veitingarekstri en nánar má lesa um Hannesarholt á heimasíðu hússins hér.