Fréttir

Námskeið vorið 2016

2016 thjodbuningurDagskrá Heimilisiðnðarskólans vorið 2016 hefur litið dagsins ljós. Upplýsingar um einstök námskeið má finna undir liðnum námskeið fyrir miðri síðu hér ofar. Bæklinginn í heild sinni má nálgast á pdf formi hér.

Að venju eru mörg spennandi og fjölbreytt námskeið í boði, sambland af klassískum námskeiðum og nýjungum. Þjóðbúningasaumur kvenna og barnabúningar hefjast um miðjan janúar en auk þes er boðið upp á ýmis námskeið tengd þjóðbúningum, s.s. útsaum í peysufataslipsi, spjaldofin styttubönd og undirpilsasaum. Tíu vikna námskeið í vefnaði fyrir byrjendur og lengra komna hefst í janúar og annað fimm vikna námskeið eftir páska. Helgarnámskeið í ullarlitun með kemískum litum verður um miðjan janúar en sólarlitun og jurtalitun í vor og sumar.

Fjölmörg útsaumsnámskeið eru á dagskrá og er þar talsvert um nýjungar. Má þar nefna tveggja kvölda námskeið í refilsaumi, bróderuðum upphafsstöfum eða gamla krosssauminum, augnsaumi og glitsaumi. Þrívíddarsaumur, harðangur og klaustur, svartsaumur, hvítsaumur auk framhaldsnámskeið í svart- og hvítsaumi er á dagskrá. Knipl, baldýring og orkering er á sínum stað en að þessu sinni er einnig í boði framhaldsnámskeið í orkeringu.

2016 hekl sjalPrjón og hekl er sívinsælt. Láréttar lykkjur, tvíbandaprjón og vettlingar sem koma á óvart eru á meðal prjónanámskeiða. Þeir sem kunna að hekla en vilja skerpa á þekkingu sinni og læra að fara eftir uppskriftum/teikningum geta fundið örnámskeið þar sem kennt er að hekla sjal eða uglu auk tveggja kvöld námskeiðs þar sem hekluð er húfa og vettlingar. Einnig er boðið upp á byrjendanámskeið í hekli og upprifjunarnámskeið. Stjörnuhekluð teppi úr plötulopa eru ómótstæðileg en slík teppi má hekla á þar til gerðu námskeiði. Þeir sem vilja virkja ímyndunaraflið geta lært að hekla barnapeysu úr eigin afgöngum án uppskriftar. Gimb er skemmtileg aðferð þar notaður er sérstakur gimbgaffall til að hekla lengjur en úr þeim má t.d. gera falleg sjöl.

Af öðrum námskeiðum má nefna tóvinnu þar sem nemendur læra gömul vinnubrögð við ullarvinnslu. Vattarsaumur er eldri en prjón en hann má læra á fjögura kvölda námskeiði. Þá eru ótalin námskeið í myndvefnaði, tálgun, fléttun kaffipoka og leðursaumi.

Velkomin á námskeið! - skráning á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 551 5500.