Fréttir

Mörg spennandi námskeið framundan

Á meðal námskeiða er Endurnýting kaffipoka sem kennd er á örnámskeiði fimmtudaginn 29. október kl. 19-22. Kaffipokar eru jafnan litríkir og margir glansandi gylltir eða silfraðir að innan og því fallegur efniviður. Á námskeiðinu er gerð lítil falleg fléttuð karfa sem kennir undirstöðuatriði í verkinu. Gott er að safna saman kaffipokum í öllum mögulegum stærðum og litum, en einnig er hægt að fá poka á námskeiðinu. Pokarnir eru skornir í ræmur og þær fléttaðar saman eftir kúnstarinnar reglum. Áhöld sem þarf að nota eru: Skurðamotta, skurðarhnífur eða dúkahnífur, einnig er hægt að nota skæri, góðan penna og reglustiku, þvotta- eða bréfaklemmur eru góð hjálpartæki við vinnuna. Hægt er að koma með sitt eigið efni og áhöld eða fá endurgjaldslaust á staðnum. Námskeiðsgjald er 7.000 kr (6.300 kr. fyrir félagsmenn).